Glæsilegu Íslandsmóti lauk á sunnudaginn og er óhætt að segja að margar glæsilegar sýningar sáust og sennilega hefur aldrei verið eins flottur og góður hestakostur í öllum flokkum á Íslandsmóti áður. Gaman er að sjá hversu flinkir yngri knaparnir eru orðnir og hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku í þeim flokkum, svo framtíðin er greinilega björt í hestamennskunni.

Mótið gekk mjög vel í alla staði, en því miður þá þurftum við að fresta verðlaunaafhendingu í tölti ungmenna og viljum við biðja knapa aftur afsökunar á því. Þetta kom til vegna þess að Stöð 2 var með ákveðinn útsendingartíma og gat ekki farið fram yfir þann tíma vegna annara dagsskrárliða svo það varð að byrja á tölti í opnum flokki á þessum tíma. Við viljum þakka keppendum fyrir mótið því þeir voru til fyrirmyndar varðandi stundvísi og framkomu á mótinu.

Ekkert stórmót er þó haldið án sjálfboðaliða sem halda mótið og eru þeir eiginlega hinar sönnu hetjur mótanna. Þið eigið stórt hrós skilið fyrir allt ykkar vinnuframlag fyrir félagið og keppendur því án ykkar yrði ekkert mót haldið. Sumir tóku frí úr vinnu og löggðu fram líkama og sál alla dagana sem mótið var haldið, ásamt því að koma að undirbúningi. Það er erfitt að nefna nöfn þegar allir leggjast á árarnar en þeir sem voru í mótanefnd (Ásta, Unnur, Hrefna Karls, Hrefna Hallgríms, Drífa, Rúnar, Sigmar, Davíð, Hilda Karen, Sóley og Inga) eiga stórt hrós skilið fyrir fráfærlega skipulagt og vel heppnað Íslandsmót. Knús og kram til ykkar og allra hinna sem komu að mótinu.