Nú þegar allur undirbúningur undir vetrarstarið er kominn á fullt og sameiginlega nefndarfundinum okkar er lokið þá er ekki úr vegi að fara yfir það sem stjórnin er að sýsla við.
Fyrst af öllu viljum við nefna að nefndarfundurinn sem haldinn er í byrjun október er mjög mikilvægur fyrir vetrarstarfið og skipulag þess. Þar er ákveðin dagskrá vetrarins, mótunum er raðað upp og allar þær fjölmörgu uppákomur sem eru á vegum félgasins skipulagðar, en láta má nærri að allt að 70 atburðir séu skipulagðir á einhvern hátt af Fáks félögum ár hvert.
Fundurinn bar yfirskriftina; Hvað gerir Fákur fyrir þig og hvað gerir þú fyrir Fák! Viljum við hvetja alla félagsmenn til þess að leggja eitthvað af mörkum í félagsstarfið, hvort sem það er lítið eða stórt, allt eftir óskum og vilja hvers og eins.
Eftir nefndarfundinn er hægt að skipuleggja næstu skref, eitt af því sem var rætt þar var samstarf hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu með sameiginlega fræðslu, hvor sem hún væri í formi fyrirlesara eða sýnikennslu. Fræðsluhópurin hefur hist og skipulagt sig og er fyrsta sameiginlega fræðslukvöldið þegar komið á dagskrá.
Ef farið er yfir helstu mál sem unnið er að þessa dagana má m.a. nefna:
Undirbúningur að nýju deiliskipulagi fyrir félagssvæðið okkar er hafið, fyrsti fundur er miðvikudaginn 21. nóvember n.k. með almennum félagsfundi og fulltrúi Reykjavíkurborgar mætir á þann fund með okkur. Við höfum sagt í stjórninni að við séum að vinna eftir 10 ára skipulagi en framkvæma eftir 1-2 ára rekstraráætlunum.
Uppskeruhátíð/afmælishátíð Fáks verður haldinn þann 24 nóvember að hætti afmælisnefndar, undirbúningur er kominn vel á veg og allt að verða klárt fyrir daginn.
Nýr samningur við Reykajvíkurborg um Reiðhöllina er að fara í gang því núverandi samningur rennur út í lok ársins. Mjög mikilvægt er að huga vel að málum þar og einnig því hvernig við getum byggt upp og bætt aðstöðu okkar enn frekar t.d. með byggingu 80 hesta húsi við reiðhöllina.
Nýliðun félagsins er mikilvægt málefni og bíðum við eftir niðurstöðu ÍTR um þau málefni og hvernig við getum staðið að þeim á næsta ári. Vonumst við eftir jákvæðu svari í byrjun desember eða þegar fjárhagsáætlun borgarinnar liggur fyrir.
Stefnt er að útkomu Fáksblaðsins í byrjun desember n.k. blaðið verður minna í sniðum en í ár eða svipað og undanfarin ár.
Stjórn félagsins hefur unnið að því að fjölga yfirbyggðum reiðgerðum á félagssvæði Fáks, en eins og allir vita var byggt eitt tilrauna gerði upp í Almannadal síðastliðin vetur sem tókst í flesta staði mjög vel og hefur notið mikilla vinsælda. Stjórnin hefur lagt á það áherslu að fjölga slíkum gerðum en fjárhagur okkar setur okkar þröngar skorður en nú þegar uppgjöri við Landsmót er lokið er hugsanlega að opnast möguleikar á að skoða það.
Deiliskipulag Heiðmerkur var í brennidepli í haust en það mál virðist nú vera stopp vegna afstöðu Orkuveitu Reikjavíkur í þeim málum, vonandi næst niðurstaða í því máli sem allir geta sætt sig við.
Samstarfi við Norðlingaskóla var frestað í haust því ekki fékkst fjármagn í það verkefni á þessu ári en vonandi næst fjármagn í það fyrir haustið 2013. Þetta er mikilvægt og þarft verkefni sem Fákur á að sinna með stolti og er vísir að því að hestamennska gæti verið valfag á þremur síðustu árum grunnskólans fyrir þau börn sem þess óska og búa í Reykajvík.
Stjórnin hefur sent erindi inn til Vegagerðarinnar vegna vegriða við Breiðholtsbraut og vonandi berast góð tíðindi úr Borgartúninu fljótlega.
Unnið er að gerð samninga við Reiðskólana sem starfað hafa á félagssvæði Fáks, vonast er til að fljótlega verði gengið til þeirra samninga.
Sent hefur verið bréf til Reykjavíkurborgar með beiðni um lagfæringu á reiðveg við Bölta, en ljóst má vera að mikil slysahætta getur stafað af staðsetningu reiðvegarins eins og málum nú er háttað.
Hér hefur aðeins verið stiklað á nokkrum þeim málum sem stjórnin fjallar um hverju sinni. Stjórnin hittist að öllu jöfnu annan hvern mánudag og fer yfir þau mál sem liggja fyrir, bæði stór og smá.
Félagsmönnum er bent á að auðvelt er að senda inn erindi til stjórnar með því að senda tölvupóst á netfangið Fakur@Fakur.is eða koma með skriflegt erindi á skrifstofu félgasins.
Einnig vill stjórnin benda félagsmönnum á að allar fundargerðir stjórnar eru öllum opnar á heimasíðu félagsins.
Fyrir hönd stjórnar félgasins
Rúnar Sigurðsson
Formaður.