Ræktunarbikar Fáks er farandsbikar sem veittur er árlega hæst dæmda kynbótahrossi sem fætt er og í eigu Fáksmanns á sýningardag. Í ár hljóta Ræktunarbikar Fáks hjónin Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir fyrir stóðhestinn Topp frá Auðsholtshjáleigu.
Toppur er undan Álfasteini Keilissyni frá Selfossi og Trú Orradóttur frá Auðsholtshjáleigu.Toppur fékk 8,49 í aðaleinkunn á Sörlastöðum í vor, sýndur af Fáksmanninum Sigurði Matthíassyni. Toppur fékk m.a. sjö níur, fyrir höfuð, háls,samræmi, tölt, hægt tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið.
Þess má geta að hryssan Ríma Gaumsdóttir frá Auðsholtshjáleigu, sýnd af Árna Birni, fékk sömu aðaleinkunn en Toppur var hærri á aukastöfum.
Til hamingju Gunni og Krissa með glæsileg kynbótahross.