Á fundi Reiðveganefndar í Kjalarnesþingi hinu forna þann 20. mars sl.var ákveðið að efna til fræðsluferðar í umdæmi nefndarinnar. Var þeim Ara Sigurðssyni Sóta og Jóhannesi Oddssyni Herði falið að annast undirbúning ferðarinnar. 4. apríl varð fyrir valinu, var miðað við að allt að fimm manns mættu frá hverju félagi.

Fyrir þau sem ekki vita hvað ,,Reiðveganefnd í Kjalarnesþingi hinu forna“ er þá er það samstarfsnefnd hestamannafélaga á SV svæði landsins. Hestamannafélögin í umdæmi nefndarinnar eru átta, Adam í Kjós, Hörður í Mosfellsbæ, Fákur í Reykjavík, Sprettur í Kópavogi og Garðabæ, Sóti á Álftanesi, Sörli í Hafnarfirði, Brimfaxi í Grindavík og Máni í Reykjanesbæ og Reykjanesi. Baráttumál nefndarinnar er að byggja upp og viðhalda reiðvegum í umdæminu til hagsbóta fyrir hinn almenna hestamann, þeir koma nefnilega ekki til bara svona af sjálfu sér.

Lagt var upp í ferðina frá Loft-Orku í Miðhrauni kl. 14:00, ágæt mæting var í ferðina, eða alls tuttugu og einn. Fyrst var farið í námurnar í Vatnsskarði þarsem staðarhaldari tók á móti hópnum, boðið upp á kaffi og kruðerí áður en ekið var um námusvæðið undir leiðsögn staðarhaldara. Um þrír áratugir eru síðan vinnsla hófst í Vatnsskarðsnámum, það er nokkuð ljóst að margar millj. m3 efnis hafa verið unnin á þeim tíma í námunum.

 

Blandað reiðvegaefni skoðað í Vatnskarðsnámu

Blandað reiðvegaefni skoðað í Vatnskarðsnámu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá Vatnskarðsnámum var haldið að Hvaleyrarvatni og áleiðis í Kaldársel þar sem Haraldur Guðfinnsson sagði frá fyrirhuguðum reiðvegaáætlunum þeirra Hafnfirðinga á næstu árum. Leið lá nú um Flóttamannaveg að afleggjara i Heiðmörk ( Vífilsstaðahlíð ) Jóhannes Oddsson sagði frá reiðvegi inn með Vífilsstaðahlíð og dásamaði vegstæðið, hvernig reiðvegurinn var látinn fylgja landinu á forsendum náttúru umhverfisins. Það er varla að reiðvegurinn sem er 4,1 km. sjáist frá akveginum. Farið var nú í Hjalladal þar sem Walter Leslie ( Lessi ) beið okkar með steinbrjótinn, búið var að hefla upp garð á reiðveginum inn að Gjármótum og ætlaði Lessi að sýna okkur hvernig steinbrjóturinn virkaði.

Steinbrjóturinn í Hjalladal að mylja garðinn.

Steinbrjóturinn í Hjalladal að mylja garðinn.

Tennurnar í steinbrjótnum.

Tennurnar í steinbrjótnum.

Þess má geta að dráttarvélin sem er John Deere 8530 er geysi öflug eða um 450 hestöfl, útseldur tími á mann og vél er um 50 þús. kr. Að meðaltali  fer vélin um 800 mtr. á klst. þegar búið er að undirbúa fyrir mölun. Sumum þótti efnið ekki nógu gróft sem átti að brjóta, en steinbrjóturinn ræður auðveldlega við 40-50 cm. hnullunga sem brotna í smátt. Ekki skorti á veitingar hjá Lessa, en hann sá um að veita þeim sem vildu ótæpilega af ,,lífsins vatni“ sem vildu og súkkulaði. Ekki lét Lessi þar við sitja heldur fól JO það sem eftir var af lífsvatninu til að bæta á ferðalanga þegar þorsti sækti að. Ari sá svo um að gauka baukum að þeim sem vildu við hann bauka, og gerði það vel, þannig að ekki var skortur á því sem eftir lifði ferðar.

Leiðin lá nú um Hjallabraut í Heiðmörk og sagði Halldór Halldórsson frá reiðslóðum í Heiðmörk og deiliskipulagi Heiðmerkur sem Orkuveita Reykjavíkur hafnaði vegna vatnsverndar á vatnstökusvæðum í Heiðmörk. Halldór sagði frá að á málþingi um vatnsvernd og útivist í Heiðmörk hafi forstjóri OR haft minnstar áhyggjur af umferð hestamanna í Heiðmörk. Þar sem ekkert deiliskipulag er gildandi fyrir Heiðmerkursvæðið hlýtur hestamönnum að vera frjáls umferð um gamla kinda- og hestaslóða sem víða er að finna í Heiðmörkinni. Halldór telur OR vera mesta áhættuvald varðandi mengun vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins með t.d. óheftum útblæstri brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun sem leggst yfir land með aðrennsli grunnvatns að Gvendarbrunnum.

Ekið var nú framhjá Rauðhólum á Suðurlandsveg, Hafravatnsveg og upp á Hólmsheiði, þar var sagt frá baráttu fyrir reiðvegi yfir Hólmsheiði, reiðvegi sem síðar var breytt í akveg, en gamli slóðinn var uppbyggður í staðinn. Leiðið lá nú niður Úlfarsárdal þar sem við okkur blöstu þrenn undirgöng fyrir reiðveg frá reiðvegi við Vesturlandsveg og upp á Hólmsheiði, undirgöngin eru til staðar, en reiðveginn vantar.

Leiðin lá nú um Mosfellsbæ og Mosfellsdal þar sem JO sagði frá reiðvegum á svæði Harðarmanna. Með okkur í för var formaður Harðar Jóna Dís, það var upplýst í ferðinni að hún átti afmæli þennan dag og að sjálfsögðu var afmælissöngurinn sunginn fyrir hana. Ekið var um Kjósarskarðsveg í Kjós, Óðinn Elíasson sagði frá reiðvegaframkvæmdum í Kjósinni, hvað hafði verið gert á liðnum árum og hvað væri á döfinni þetta árið. Ljóst er að Kjósverjum hefur orðið mikið úr því fjármagni sem þeim hefur verið úthlutað undanfarin ár. Ekki vantar mikið á að búið sé að hringtengja alla sveitina auk þess sem búið er að laga reiðleið um Reynivallaháls í Hvalfjörð og reiðleið upp á Svínaskarð.

Úr Kjósinni var ekið á félagssvæði Harðarmanna, í reiðhöllinni beið okkar íslensk kjötsúpa, brauðmeti og veigar af bestu gerð. Þessu voru gerð góð skil, að loknu standandi borðhaldi voru sungin tvö lög undir forustu Guðrúnar Oddsdóttur úr Fáki, að sjálfsögðu var hún beðin um að syngja hátíðasöng Sprettara ,,Sprett“ sem vafðist ekki fyrir henni frekar en félaga hennar úr Fáki Halldóri Ólafssyni. Að loknum góðum degi héldu menn til sinna heima.

 

Hópurinn í reiðhöll Harðar.

Hópurinn í reiðhöll Harðar.

Á myndina vantar þá Adamsfélaga Óðinn Elíasson og Sigga vinnumann, einnig Guðrúnu Oddsdóttur sem tók myndina.  Næsta fræðsluferð nefndarinnar verður væntanlega um suður-amtið þ.e. um Reykjanes og Suðurnesin.

Samantekt HH.