Fundarmenn harma að í deiliskipulagi um Heiðmerkursvæðið sem nú er í kynningu, sé ekki tekið tillit til ýtarlegra athugasemda frá hestamönnum um reiðleiðir á deiliskipulaginu, né þeirra tillagna til úrbóta, sem kynntar voru skipulagsyfirvöldum borgarinnar við kynningu sama deiliskipulags árið 2010.
Skipulagið, eins og það er kynnt, virðir ekki langa hefð hestamanna um notkun svæðisins til útivistar. Hestamenn eru útilokaðir frá stórum hluta svæðisins í skipulaginu, eina heilstæða leiðin í núverandi drögum er um 20 km og því ljóst að skipulagsdrögin eru ekki að mæta almennri notkun hestamanna.
Útivistarhópum, sem nýta Heiðmörk, er stórlega mismunað í þessum tillögum þar sem aðgengi hestamanna er verulega skert þrátt fyrir áratuga hefð á notkun svæðisins til útivistar. Fundurinn vekur athygli á því að skráðir félagsmenn hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu eru um 6.000 og gert er ráð fyrir að virkir iðkendur séu um 18.000.
Auk þess að bæta aðgengi hestamanna að svæðinu, þarf að fara yfir skörun við aðra umferð með gagnrýnum augum með umferðaröryggi í huga, það á ekki síst við um ný gatnamót inn í Heiðmörk frá Suðurlandsvegi, sem m.a gerir ráð fyrir hjólandi, gangandi og ríðandi umferð í sömu undirgöngin. Fundurinn skorar á yfirvöld að skoðaðar verði aðrar lausnir á þessum gatnamótum í samvinnu við Vegagerðina og Fák.
Hestamennska í þéttbýli er mjög merkileg menningararfleifð og hluti af þeirri fjölbreyttu flóru mannlífs sem gerir Reykjavíkursvæðið einstakt. Fyrir utan þennan stóra notendahóp sem nýtur samvista við hestinn, er ótalinn allur sá fjöldi barna og ungmenna sem hafa notið þess að fara á reiðnámskeið á Reykjavíkursvæðinu, að ótöldum ferðamönnum, en hestatengd ferðaþjónusta er mjög vaxandi atvinnuvegur á höfuðborgarsvæðinu. Aðstöðusköpun og öryggismál eru því mjög brýn í stóru samhengi.
Fundurinn skorar á skipulagsyfirvöld að mæta þörfum þessa stóra útivistarhóps í jaðri Heiðmerkur og endurskoða tillögur um reiðleiðir og aðstöðu hestamanna í kynntu deiliskipulagi.