Um síðustu helgi hélt Orkuveita Reykjavíkur málþing um Heiðmörkina þar sem yfirskriftin var vatnsvernd ofar öllu. Orkuveitan er eigandi að Heiðmörkinni og vill eðlilega passa upp á það að vatnsbólin mengist ekki, því í Heiðmörkinni eru vatnstökusvæði fyrir nær allt höfuðborgarsvæðið og hræðilegt til þess að hugsa ef þau menguðust og ekki væri hægt að nýta drykkjarvatn þaðan. Allir hljóta að vera sammála um það, en hingað til hafa ekki allir verið sammála um hvernig eigi að nýta Heiðmörkina í sátt við vatnsverndina.
Við hestamenn höfum verið í varnarbaráttu síðustu 10 ár um að fá reiðleiðir viðurkenndar í Heiðmörkinni, en þær eru í dag meðfram vatninu (Hjallaleiðin) og akvegir. Síðan 2004 hefur verið unnið að nýju deiliskipulagi fyrir Heiðmörkina. Fyrir okkar hönd hefur samstarfshópur á vegum hestamannafélagana á svæðinu hefur unnið mikla vinnu við að skoða, kortleggja og verja í ræðu og ritum af hverju hestamenn eiga að fá að hafa reiðleiðir í Heiðmörkinni . Því hefur verið beitt gegn okkur að hrossatað mengi svo mikið að takamarka eigi verulega umferð hestamanna um svæðið og jafnvel útiloka okkur frá Heiðmörkinni. Það var því ánægjulegt að heyra það frá forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur segja það í ræðupúlti á málþinginu að minnstu áhyggjurnar séu af því að hestar eða hestamenn mengi vatnsbólin af þeim hópum sem sæki í Heiðmörkina og því minnstar áhyggjur af umferð hestamanna um svæðið. Stór orð sem vonandi fá vængi og við fáum góðar reiðleiðir á fallegum reiðvegum í Heiðmörkinni til framtíðar. Nefndarmenn verða þó að vinna áfram með málið og koma reiðleiðunum fyrst inn á deiliskipulagið og síðan að láta framkvæma þær sem verða nýjar og laga þær gömlu í Heiðmörkinni. Koma þarf upp áningarhólfum á góðum stöðum og þá verða allir ánægðir.
Rúnar Sigurðsson, Þorvarður Helgason, Dagný Bjarnadóttir, Guðrún Oddsdóttir, Halldór H. Halldórsson, Bergljót Rist.