Stórsýning Fáks fer fram í kvöld í TM Reiðhöllinni Víðidal og hefst sýningin klukkan 21:00. Dirty Burger & Ribs verða búnir að kynda upp í grillinu um klukkan 19 þegar húsið opnar og er kjörið að koma og gæða sér á veitingum frá þeim áður en opnað er inn í sýningarsal. Þeir verða með dúndurtilboð og verður rétturinn á 1.500 krónur, val á milli hamborgara og rifja.
Töltslaufur Kjarnakvenna verða á sínum stað, fimleikaatriði, fulltrúar Auðsholtshjáleigu, Heimasætur úr Halakoti, Reykjavíkur-, Íslands- og Heimsmeistarar Fáks, Brottfluttir Fáksmenn koma með afkvæmasýningu, stólpagæðingar frá Stóra-Hofi og margt annað sem gleður augað. Magni Ásgeirs mun taka lagið og hita upp fyrir ballið í félagsheimilinu síðar um kvöldið. Eins og ávallt er lagt upp úr fagmannlegum sýningum, góðri reiðmennsku og glæsilegu undirspili.
Í fyrra vakti sýningin mikla lukku og var fullt út úr dyrum. Miðaverð í forsölu er krónur 2.500 og 2.900 krónur á staðnum.
Það verður síðan Landsmótsstemming á ballinu eftir sýninguna í kvöld. Þeir Sigvaldi Helgi, Reynir Snær, Stebbi Jak, Andri, Magni Ásgeirs og Jogvan Hansen ætla að hita upp fyrir Landsmót. Stefnir í brjálaða sveiflu. Aðgangseyrir er 1.000 krónur 🎉
Takið kvöldið frá og mætum hress og kát í Víðidalinn 🙂í kvöld 🙂