Haukur Þór Hauksson

Haukur Þór Hauksson

Nýliðnu þingi Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) lauk í síðustu viku en á því gerðist sá merkis atburður að stjórnarmaðurinn Haukur Þór Hauksson var kjörinn í stjórn ÍBR og er það í fyrsta sinn sem hestamaður mun sitja í stjórn ÍBR. Þetta er stórt skref fyrir okkur hestamenn því þannig tryggjum við að okkar rödd heyrist þegar verið er að fjalla um mikilvæg mál og teknar ákvarðanir varðandi íþróttaiðkun í Reykjavík.

Það er mikilvægt fyrir okkur hestamennn að við gleymum okkur ekki bara í gleði og útreiðum. Við verðum að taka þátt í umræðum á málefnum sem snúa að íþrótta- og tómstundastarfi vegna þess að við erum jaðaríþrótt og það er því töluverð hætta á að það gleymist að taka tillit til okkar, því við höfum ekki talsmenn sem vilja fórna starfskröftum sínum í að standa vörð um okkar hagsmuni og stuðla þannig að eflingu hestamennskunnar í landinu. Allir hugsa aðrir um sitt og við verðum að gera það líka. Ef allir hestamenn leggjast á árarnar og róa í sömu átt skilar okkur mun hraðar að settum markmiðum, sem er að efla aðstöðu og fjölga hestamönnum í landinu. Orð Jóns Sigurðssonar forseta eiga á margan hátt vel við um okkur hestamenn, „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.“

Þeir sem sátu ÍBR þingið fyrir Fák voru:

Guðrún Oddsdóttir, Haukur Þór Hauksson, Helga B Helgadóttir, Hrönn Ægisdóttir, Helgi Sigurjónsson, Jón Finnur Hansson, Rúnar Sigurðsson og Ýlfa Proppé Einarsdóttir.

Um ÍBR.

ÍBR gætir hagsmuna íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík gagnvart opinberum aðilum, vinnur að eflingu og skipulagningu íþróttastarfsemi í Reykjavík og er tengiliður íþróttafélaganna við Reykjavíkurborg. ÍBR styður starfsemi íþróttafélaganna með styrkjum frá Reykjavíkurborg fyrir aðstöðu til æfinga og keppni og vegna ferðastyrkja en einnig fær íþróttahreyfingin í Reykjavík styrki frá ÍSÍ vegna hagnaðar af Íslenskri getspá og af Íslenskum getraunum.

Á meðal verkefna ÍBR eru:

  • Úthlutun tíma til íþróttafélaga í íþróttamannvirki borgarinnar (t.d. Reiðhallarinnar)
  • Útleiga á lausum tímum í íþróttamannvirkjum til almennings
  • Umsjón alþjóðlega íþróttamótsins Reykjavík International Games
  • Úthlutun á styrkjum til íþróttafélaganna
  • Kannanir á þátttöku og styrkjum til íþróttastarfs
  • Eftirfylgni með starfsemi íþróttafélaga
  • Rekstur Reykjavíkurmaraþons og umsjón viðburða þess sem eru Miðnæturhlaup Powerade, Laugavegurinn – Ultra Maraþon og Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.
  • Rekstur Skautahallarinnar í Laugardal
  • Umsjón með íþróttaskóla fyrir 6 ára börn í samstarfi við íþróttafélögin og ÍTR
  • Stuðningur við afreksfólk í Reykjavík
  • Skipulagning þátttöku Reykjavíkur á Alþjóðaleikum ungmenna og Skólaíþróttamóti höfuðborga Norðurlandanna.