Umhverfisstefna

Starfsemi hestamannafélagsins Fáks er í nánu sambandi við náttúru Íslands og íslenska hestinn. Félagið leggur því mikla áherslu á að starfsemi þess sé sjálfbær, umhverfisvæn og að umhverfisáhrif starfseminnar verði lágmörkuð eftir því sem kostur er. Félagið leggur einnig áherslu á að hvetja félagsmenn til umhverfisvænnar hugsunar og huga að áhrifum þeirra á náttúruna. Félagið vill þannig stuðla að því að ábyrgð og virðing gagnvart náttúrunni sé leiðarljós í allri starfsemi þess. Markmiðið með stefnunni er að hver kynslóð skili landinu og auðlindum þess í betra horfi til þeirra næstu.

Félagið leitast við að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og fylgja lagalegum kröfum á sviði umhverfismála. Það leggur áherslu á að hestamenn þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að lágmarka þau áhrif eins og kostur er. Þá mun félagið leitast eftir fremsta megni við að nota endurnýjanlegar auðlindir í starfsemi sinni og hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi við fjárfestingar og innkaup.

Hestamannafélagið Fákur mun hafa eftirfarandi markmið að leiðarljósi í allri sinni starfsemi:

  • Að ásýnd og aðkoma að mannvirkjum félagsins sé til fyrirmyndar og aðgengi sé gott.
  • Að draga úr orkunotkun í mannvirkjum félagsins eftir því sem hægt er.
  • Að stöðugt verði unnið að því að draga úr myndun úrgangs.
  • Að endurnýtanlegur úrgangur verði flokkaður og skilað til endurnýtingar.
  • Að spilliefnum verði skilað til viðurkenndra móttökuaðila.
  • Að dregið verði úr notkun einnota borðbúnaðar og þegar slíkur búnaður er notaður skal hann vera umhverfismerktur.
  • Að dregið verði úr notkun pappírs og að sá pappír sem notaður er sé umhverfismerktur.
  • Að útgáfa prentverka á vegum félagsins verði umhverfisvottuð.
  • Að allar ræstivörur sem notaðar eru séu umhverfismerktar.
  • Að hlutfall umhverfisvottaðrar þjónustu og vara verði hámarkað.
  • Að öll ákvæði laga og reglugerða um umhverfismál verði uppfyllt og að stöðugt verði unnið að úrbótum í umhverfismálum félagsins.
  • Að hugsa vel um félagssvæði félagsins og sjá til þess að það sé hreint og vel hirt.
  • Að stuðla að samstarfi milli Reykjavíkurborgar og annarra aðila um verndun reiðvega og útivistarsvæða í útjaðri borgarinnar.

Félagið hvetur félagsmenn sína um að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála, sýna náttúru landsins virðingu og leitast við að valda sem minnstu raski í umhverfinu á ferðum sínum um landið á hestum.

Með umhverfisstefnu sinni vill félagið stuðla að góðri umgengni hestamanna um umhverfið og náttúru landsins.

Samþykkt á stjórnarfundi 1. desember 2025.