Stöð 2 Sport hefur frá áramótum boðið upp á vikulega hestasportþætti og beinar útsendingar frá hestaíþróttamótum. Meistaradeildin í hestaíþróttum var í beinni útsendingu, sýndir voru þættir frá KS deildinni auk þess sem töluverð dagskrárgerð hefur verið í boði tengd hestum og hestaíþróttum.

Viðbrögðin hafa verið mjög góð og áhugafólk um hestaíþróttir hefur verið ánægt með að geta fylgst með sportinu í sjónvarpinu heima í stofu. Hestamannafélagið Fákur í Reykjavík og 365 miðlar hafa nú gert með sér samkomulag um beinar útsendingar á Stöð 2 Sport frá hestaíþróttamótum sem eiga sér stað á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík.

Fyrsta beina útsendingin verður strax í næstu viku frá Reykjavíkurmóti Fáks sem hefst miðvikudaginn 7. maí og lýkur sunnudaginn 11.maí. Reykjavíkurmótið er fjömennasta hestaíþróttamót landsins þar sem um 500 keppendur eru skráðir til leiks í barna- og fullorðinshópum.

Stöð 2 Sport mun sýna í beinni útsendingu daglega frá keppni í Meistaraflokki á Reykjavíkurmótinu. Stöð 2 Sport mun auk þess vera með beinar útsendingar í sumar frá Íslandsmótinu í hestaíþróttum sem fram fer í Víðidal í Reykjavík 23. júlí – 27. júlí. Íslandsmótið nú verður óvenjulegt að því leiti að í stað þess að vera tvö mót eins og síðustu áratugi verður Íslandsmótið nú eitt stórt og veglegt mót.

Búast má við miklum fjölda keppanda í ár enda Íslandsmótið einn af hápunktum ársins í hestaíþróttum. Auk þess hafa Fákur og 365 miðlar ákveðið að hefja samstarf um kappreiðar sem sýndar verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áætlað er að skipuleggja tvö kappreiðamót í sumar þar sem bæði verður keppt í stökki og skeiði.