Reykjavíkurmót Fáks verður haldið þann sjöunda til ellefta maí á næsta ári. Reykjavíkurmótið hefur undanfarin ár verið fyrstu helgina í maí, en var í „gamla daga“ aðra helgina í maí og hefur verið ákveðið að færa það aftur yfir á þá tímasetningu í framtíðinni. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. M.a. að mótið teygir sig orðið fram í apríl og það er erfitt að halda stærsta íþróttamót landsins við þær aðstæður sem náttúran og veðrið býður upp á á þeim tíma árs. Hvammsvöllurinn er um mánaðarmótin apríl, maí rétt nýkominn undan vetri og höfum við jafnvel þurft að ryðja snjó af vellinum til að geta hafið mótið. Undanfarin ár hefur ekki verið tími eða mjög lítill tími til æfinga áður en mótið hefst, því keppnisvellir hafa verið drullusvað á þessum tíma. Stuttur æfingatími skapar bæði keppendum og mótshöldurum erfiðleika, því hestar eru rétt að komast í keppnisform og knapar þurfa að æafa sig og vita hvort hesturinn er tilbúinn í keppni áður en skráningarfrestur er útrunnin, sem er rúmlega viku áður en mótið hefst. Allur undirbúningur hefur því verið erfiður fyrir keppendur og þar sem mótið er eitt af fáum World ranking mótum hér á landi viljum við vanda eins vel til verks eins og hægt er og þess vegna hefur mótanefnd Fáks ákveðið að færa Reykjavíkurmótið yfir á aðra helgina í maí í framtíðinni.

Með von um betra veður, betri vallaraðstæður og meiri æfingatíma ætti mótið að vera betra fyrir keppendur og mótshaldara 🙂