Einar Gíslason er nýráðinn framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Fáks. Einar mun starfa við hlið Tóta út næstu viku og kemur svo að fullu til starfa í byrjun janúar.

Einar er 36 ára ferðamála- og markaðsfærðingur og hefur verið búsettur í Sviss undanfarin ár þar sem hann og eiginkona hans hafa rekið hesthús sem býður upp á alla þjónustu fyrir hestamenn ásamt því að hafa boðið upp á ferðir til Íslands undir þeirra leiðsögn. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Hvalasafnsins á Húsavík ásamt því að vera Forstöðumaður Húsavíkurstofu. Hann hefur verið í hestamennsku frá blautu barnsbeini og ræktar hross ásamt föður sínum en þeir kenna ræktun sína við Húsavík. Hann hefur verið virkur í félagsstarfi hestamannafélaganna Þjálfa og Grana.

Starf framkvæmdastjóra félagsins var auglýst nú í haust og bárust 10 umsóknir um starfið og fékk stjórn Fáks óháðan aðila til að fara yfir umsóknirnar sökum vanhæfist stjórnar.

Stjórn Fáks býður Einar velkominn til starfa, hlakkar til samstarfsins við hann og vill jafnframt nota tækifærið og þakka þeim sem sóttu um fyrir þeirra umsóknir.