Að venju er á Gæðingamóti Fáks afhent ein glæsilegasta farandsstytta landsins, en það er Gregesenstyttan. Hún er veitt til minningar um Ragnar Gregesen Thorvaldsen sem vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir snyrtilegan klæðnað og vel hirt hross, ásamt því að ríða ávallt á fasmiklum gæðingum. Gregesenstyttan er veitt þeim Fáksmanni sem er í Fáksbúningur á mótinu og ríður fallegum og vel hirtum hrossum. Að þessu sinni hlaut Nína María Hauksdóttir styttuna enda er hún til fyrirmyndar í snyrtimennsku sem og prúðmannlegri framkomu. Nína María geymir því styttuna fögru næsta árið og óskum við henni til hamingju með það sem og árangurinn á mótinu en hún varð í öðru sæti í ungmennaflokk á Sprota frá Ytri-Skógum sem er í hennar eigu.