Miðnæturreið Fáksara í Gjárétt verður farin nk. föstudagskvöld 1. júní. Lagt verður af stað frá TM Reiðhöllinni kl. 20:00 og riðið upp í Gjárétt í Heiðmörk sem er ca. 45 – 60 mín reiðtúr, áð þar, étið, drukkið, sungið og svo riðið aftur heim fyrir miðnætti. Í Gjáréttinni bíða okkar grillaðar pylsur og svalur gulur vökvi sem byrjar á b… enda ferðin meira hugsuð fyrir fullorðna en það verður líka svali fyrir yngri og skynsamari kynslóðina. Allt frítt í boði Fáks fyrir Fáksfélaga.

Veðurspáin er mjög góð og vonumst til að sjá sem flesta í skemmtilegum reiðtúr í reykvískri sumarblíðu og rómantískri sólsetursbirtu maímánaðar. Ómar fararstjóri hlakkar til að sjá ykkur og biður um að þið takið með ykkur góða skapið í þessa ferð.