Limsfélagar hafa lengi haft hug á að leggja góðu málefni lið. Tækifærið gafst þegar listamaðurinn Bjarni Þór frá Akranesi, gaf félaginu málverk af stóðhestinum Glym frá Leiðólfsstöðum. Málverkið var boðið upp á árlegum hátíðarkvöldverði, sem haldin var í ársbyrjun og slegið hæstbjóðanda, Þóri Haraldssyni á 180.000 kr. og rennur upphæðin óskipt til Dropans. Limsfélagið er gleðifélag hestamanna sem heldur utan um eignarhald á stóðhestinn Glym frá Leiðólfsstöðum og verðandi stjörnuna Glaum frá Geirmundarstöðum. www.limur.123.is

Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki hefur starfað síðan 1995. Höfuðmarkmið félagsins er að stuðla að velferð barna og unglinga sem hafa greinst með sykursýki, hvar sem þau búa á landinu. Stærsta verkefni Dropans er að bjóða upp á árlegar sumarbúðir fyrir börn og unglinga með sykursýki. Læknar og hjúkrunarfræðingar frá göngudeild sykursjúkra á Barnaspítala Hringsins vinna að sumarbúðunum með Dropanum og starfa í þeim ásamt öðru frábæru starfsfólki. Sumarbúðirnar eru afar gagnlegar fyrir börnin og unglingana, þar læra þau hvert af öðru, deila sameignlegri reynslu, fá stuðning fagfólks, öðlast sjálfstæði og öryggi í meðhöndlun síns sjúkdóms. Undanfarið hefur Dropinn staðið í stórræðum við gerð fræðslumyndbanda sem eru öllum aðgengileg á netinu. Fjölskyldan, vinir, starfsfólk skóla og aðrir í nærumhverfi einstaklingsins þurfa ávallt að vera meðvituð um sjúkdóminn og rétt viðbrögð við ýmsu sem upp kann að koma. Í erli dagsins vilja ýmis mikilvæg atriði gleymast og því er gott að geta leitað sér upplýsinga á skjótan og þægilegan hátt.

Styrkurinn er því kærkomin og á eftir að nýtast félaginu vel á næstu vikum og mánuðum.www.dropinn.is

Frá Dropanum:
Jón Sólmundarson, formaður
Arnar Freyr Jónsson
Björn Ólafsson, stjórnarmaður
Hekla Lind Björnsdóttir
Hæstbjóðandi og eigandi málverksins:
Þórir Haraldsson

Frá Limsfélaginu:
Sigurður Svavarsson, skemmtanastjóri

Á málverkinu halda þær:
Hekla Dröfn Sigurðardóttir og Ylfa Guðrún Svafarsdóttir