Fréttir

Kjarkur og Konráð setja heimsmet

Á nýafstöðnu Landsmóti Hestamanna gerður þeir félagar Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu og Konráð Valur Sveinsson sér lítið fyrir og settu heimsmet í 250m skeiði þegar þeir runnu á tímanum 21,15 sekúndur en gamla metið var 21,41 sekúnda sett af Heru frá Þóroddsstöðum og Bjarna Bjarnasyni á Landsmótinu 2016 á Hólum.

En þeir voru ekki þeir einu sem settu heimsmet því metið var slegið þrisvar sinnum á mótinu og í öll þrjú skiptin af Fáksfélögum. Dalvar frá Horni I og Árni Björn Pálsson voru fyrstir til að slá metið en þeir fóru á tímanum 21,30 sekúndur, þá var röðin komin að Vökli frá Tunguhálsi II og gullbirninum sjálfum Sigurbirni Bárðarsyni en þeir gerðu sér lítið fyrir og runnu á tímanum 21,16 sekúndur og ætlaði allt um koll að keyra í brekkunni, annað heimsmet.

En þeir félagar Kjarkur og Konráð Valur ætluðu ekki að gefa sitt eftir en þeir voru með besta tímann eftir fyrri hluta kappreiðanna. Þeir gerðu gott betur en Vökull og Sigurbjörn og fóru á 21,15 sekúndur. Sigurinn og nýtt heimsmet í höfn, innilega til hamingju með það Kjarkur og Konráð Valur.