Rúnar Sigurðsson

Rúnar Sigurðsson

Töluverð umræða hefur verið í vetur um fyrirætlanir eiganda Breknaás 9, um uppbyggingu og veitingasölu í húsnæðinu. Hafa komið fram ásakanir og ádeilur á stjórn Fáks varðandi þær óskir um uppbyggingu eiganda. Ég hef nú fengið frá Reykjavíkurborg útskýringar á þessu ferli sem þarf að fara í þegar óskað er eftir breytingum á húsnæði/ deiliskipulagi eða öðrum rekstri sem óskað er eftir að verði í húsnæðinu.

Þetta kom frá Reykjavíkurborg eftir beiðni frá mér.

Útskýring á ferli:

Á sínum tíma var lögð inn umsókn frá eigendum Brekknaáss um annars vegar uppbyggingu á lóðinni og svo hins vegar um veitingarekstur í húsinu.

Skipulagsyfirvöld lögðust gegn báðum erindunum. Þegar um er að ræða að aðilar sækjast eftir auknum byggingarheimildum fer það í ferli sem lýtur að því hvort slík áform samrýmist skipulagsáformum sveitarfélagsins. Sé uppbyggingin öll innan lóðar viðkomandi fær lóðarhafi ýmist synjun eða samþykki. Ef byggingaráform fara út fyrir lóð viðkomandi þarf jafnframt ef af uppbyggingaráformum á að verða að nást samkomulag við Reykjavíkurborg um kaup á auknu landi.

Í tilviki Brekknaáss samrýmdust auknar byggingarheimildir ekki skipulagsáformum Reykjavíkurborgar. Afstaða stjórnar Hestamannafélagsins Fáks var ekki á nokkurn hátt lögð til grundvallar þeirri ákvörðun. Það kom því ekki til þess að semja um kaup á byggingarrétti ef fyrirhugaðar uppbyggingarhugmyndir hefðu farið út fyrir lóð Brekknaáss.

Hins vegar hvað varðar umsókn um veitingarekstur þá var þeirri umsókn hafnað á þeirri forsendu að það samræmdist ekki deiliskipulagi. Þetta hefur legið fyrir lengi og hefur sú starfsemi sem í húsinu er því verið ólögleg ásamt því að breytingar á því eru gerðar í heimildaleysi en slíkar breytingar ber að sækja um til byggingarfulltrúa. Vegna þessarar ákvörðunar var heldur ekki á nokkurn hátt litið til afstöðu stórnar hestamannafélagsins Fáks. Það hefði ekki skipt neinu máli hvort stjórnin hefði verið meðmælt starfseminni eða lagst gegn henni. Niðurstaðan hefði orðið sú sama.

Útskýringu lýkur.

Af framangreindu má vera ljóst að afstaða stjórnar Fáks hefur ekkert með þetta að gera. Reynt hefur verið að koma þessu á framfæri við hluteigandi en með litlum árangri og virðist frekar sett fram það sem betur hljómar fyrir þá og gert til að skaða orðstýr minn og stjórnar Fáks. Ég ætla mér ekki að svara þessum ásökunum frekar og hljóta frekari umræður um að stjórn Fáks standi í vegi fyrir þessum breytingum að dæma sig sjálf, óháð afstöðu stjórnar Fáks.

Rúnar Sigurðsson
Formaður Fáks.