Stjórn Fáks 2023-2024

Stjórn Fáks 2024-2025

  • Hjörtur Bergstað, formaður
  • Hákon Leifsson, gjaldkeri
  • Ívar Hauksson, ritari
  • Þormóður Skorri Steingrímsson
  • Sigurður Elmar Birgisson
  • Sigrún Valdimarsdóttir
  • Vilfríður Fannberg Sæþórsdóttir
  • Einar Gíslason, framkvæmdastjóri

Lög hestamannafélagsins Fáks. Samþykkt á aðalfundi 18. maí 2021 og staðfest á framhaldsaðalfundi 8. mars 2022 [pdf skjal].

Að öllu jöfnu hittist stjórn annan hvern mánudag og er hægt að koma erindi til stjórnar með því að senda það á fakur[at]fakur.is og þurfa erindi að berast a.m.k. sólarhring fyrir fund til að vera tekin fyrir næsta á fundi. Hér að neðan verða fundargerðir stjórnar birtar þegar þær hafa verið samþykktar.

Skrifstofa Fáks

Skrifstofa framkvæmdastjóra Fáks er í TM-reiðhöllinni í Víðidal. Skrifstofan hefur ekki fasta opnunartíma en framkvæmdastjóri er að jafnaði við frá 9 til 17 alla virka daga. 

Framkvæmdastjóri félagsins sinnir almennri þjónustu við félagsmenn, tímapöntunum í Reiðhöll, heimasíðu og öllu öðru því sem snýr að rekstri og þjónustu félagsins.

Skrifstofusími er 567-2166 / 898-8445

Einar Gíslason
Framkvæmdastjóri
Sími: 898-8445
Vefpóstur: einar[hja]fakur.is

Reikningar eða fyrirspurnir vegna bókhalds skal senda á reikningar[hja]fakur.is

Félagsgjöld

Án félagsgjalda er erfitt fyrir Fák að halda úti þjónustu sem allir nota árið um kring stundi þeir hestamennsku í Víðidal.

Við biðlum því til þeirra sem ekki eru félagsmenn í Fáki en stunda sína hestamennsku á svæðinu að skrá sig í félagið. 

Hægt er að skrá sig með því að senda póst á fakur[hja]fakur.is

Hvað gerir hestamannafélagið Fákur fyrir þig?

  • Félagið heldur úti öflugri hagsmunagæslu fyrir félagsmenn og hesthúsaeigendur á svæðinu.
  • Félagið hefur byggt upp myndarlegt reiðvegakerfi í samstarfi við Reykjavíkurborg.
  • Félagið heldur úti öflugu félagsstarfi fyrir alla aldurshópa félagsmanna. Sem dæmi má nefna að:
    • Félagið rekur félagshesthús fyrir börn og unglinga sem eru að taka sín fyrstu skref í hestamennsku.
    • Félagið heldur úti öflugu æskulýðsstarfi.
    • Félagið skipuleggur námskeiðahald og fræðslustarf.
    • Félagið skipuleggur sameiginlega reiðtúra félagsmanna.
    • Félagið skipuleggur viðburði fyrir heldri Fáksfélaga.
    • Félagið skipuleggur fjölmarga viðburði, litla og stóra, fyrir félagsmenn og má þar m.a. nefna Herra- og Kvennakvöld Fáks, Þorrablót og miðnæturreið í Gjárétt.
  • Félagið þjónustar og viðheldur þeim mannvirkjum sem félagið hefur byggt upp, t.a.m. TM-Reiðhöllina, keppnisvelli í Almannadal og Víðidal, félagsheimili Fáks og félagshesthúsið.
  • Félagið mokar reiðvegi á athafnasvæði Fáks til að gera félagsmönnum það léttara að stunda útreiðar yfir snjóþyngstu mánuðina.

Árgjald 2025

Fullorðnir 22 til 69 ára – 21.500 kr.
Ungmenni 18 til 21 árs –  8.800 kr. 

70 ára og eldri greiða ekki félagsgjald
17 ára og yngri greiða ekki félagsgjald

Stutt samantekt um sögu Fáks

Daníel Daníelsson var formaður Fáks fimmtán fyrstu ár þess. Hér er hann á Háfeta sínum en myndin er tekin á bak við stjórnarráðið.

Daníel Daníelsson var formaður Fáks fimmtán fyrstu ár þess. Hér er hann á Háfeta sínum en myndin er tekin á bak við stjórnarráðið.

Fyrstu félagasamtök hestamanna. Það er okkur öllum hollt að líta yfir farinn veg. Það gefur okkur færi á því að læra af reynslu annarra, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, því sjaldnast erum við að finna upp hjólið. Á næsta ári verður Fákur níræður og af því tilefni er gaman að dusta rykið af sögunni og skoða upphafið að stofnun okkar góða félags og hvernig hestamannafélagið Fákur varð að því stórveldi sem  það er í dag. Í kjallara Nýja bíós, í svokölluðum efri sal kaffihúss Rosenbergs, komu 40 hestamenn saman þann 24. apríl árið 1922. Tilefnið var stofnun landsins fyrstu félagasamtaka hestamanna, nefnilega hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Einn var sá maður þessum tíma sem hafði brennandi áhuga á öllu sem laut að hestum og var hann potturinn og pannan í því umstangi sem fylgdi stofnun félagsins. Þetta var Daníel Daníelsson ljósmyndari og seinna dyravörður stjórnarráðsins. Daníel varð fyrsti formaður félagsins og allt þar til hann lést árið 1937. Hinn kunni knapi og keppnismaður Sigurbjörn Bárðarson orti vísur um Daníel og hest hans Háfeta og flutti á 65 ára afmæli Fáks árið 1987:

Stofnaði Fák og fyrst nam stýra hinn frækni, snjalli Daníel. Á Háfetanum hreina, skíra
hylli náði fljótt og vel.

Jórinn snjalli fimur, frár fremstur allra var hann Næmur, fagur, nýtur, klár
nafn með rentu bar hann.

Þau málefni sem brunnu á hestamönnum í þá daga voru í fyrsta lagi að það var hafin svo mikil nýrækt í löndum borgarinnar þar sem hestarnir höfðu gengið á sumrum, að eigendur þeirra urðu að hrekjast með þá eitthvað lengra. Sem sagt, skortur á hagabeit fyrir hrossin innan bæjarmarkanna. Í öðru lagi var umferð bifreiða orðin svo mikil, að menn voru nánast í lífshættu létu þeir sjá sig á þeim á hestum. Þessi mál sem og áhugi manna á kappreiðum, voru helsta kveikjan að stofnun félagsins.

Kappreiðar á vellinum við Elliðaár árið 1927. Ekki hefur skort áhugann hjá borgarbúum.

Kappreiðar á vellinum við Elliðaár árið 1927. Ekki hefur skort áhugann hjá borgarbúum.

Fáksheimilið gamla við Bústaðaveg skömmu áður en það vék fyrir vaxandi borg.

Fáksheimilið gamla við Bústaðaveg skömmu áður en það vék fyrir vaxandi borg.

Athafnasvæði við Elliðaár – Neðri-Fákur Þrátt fyrir mikil vanefni hins unga félags og almennt þröngan fjárhag manna á þessum árum, var ekki verið að tvínóna við hlutina. Ráðist var í að koma upp skeiðvelli við Elliðaár af slíkum krafti og myndarskap að aðdáunarvert þykir. Á aðeins rúmum tveimur mánuðum tókst fjörutíu manna félaginu að finna hentugan stað fyrir skeiðvöll, fá landið til ráðstöfunar hjá borginni, safna fé til framkvæmda og ljúka gerð vallarins. Þar voru svo háðar fyrstu kappreiðar félagsins sunnudaginn 9. júlí 1922. Við gerð vallarins var mönnum þó ljóst að þarna væri ekki framtíðarskeiðvöllur félagsins, þar sem staðurinn fékkst ekki leigður nema um takmarkaðan tíma, sumarbústaðir þrengdu að svæðinu, landið bauð ekki upp á áhorfendabrekkur og engin tök voru á að koma þarna upp hringvelli. Skeiðvöllur þessi var þó við lýði í tæpa fimm áratugi eða fram til vorsins 1970 að kappreiðar voru haldnar þar í síðasta sinn.

Þorlákur Ottesen á gæðingi sínum og eftirlæti, Berki.

Þorlákur Ottesen á gæðingi sínum og eftirlæti, Berki.

Í formannstíð Þorláks G. Ottesen á árunum frá 1953-67, var háð mikil barátta við borgaryfirvöld og borgarskipulag, um leyfi til hesthúsabyggingar við gamla skeiðvöllinn. Það var síðan 10. júní 1959 að leyfi fékkst fyrir byggingu hesthúss við völlinn. Þar með lauk um 35 ára baráttu félagsins fyrir að fá leyfi til að byggja varanlegt hesthús sem stæðist eðlilegar kröfur, og hófust framkvæmdir strax. Árið 1963 skera borgaryfirvöld upp herör á hendur öllum skúreigendum í Reykjavík. Voru skúrar alls staðar brenndir og fjarlægðir þar sem þeir voru innan Elliðaánna. Margir voru þá ennþá með hesta sína í skúrum víðsvegar um borgina og þrengdi nú að hesteigendum í Reykjavík. Eftir mikla baráttu Fáksmanna, tókst loks í júlí 1964 að fá leyfi til að byggja fjögur hesthús til viðbótar á staðnum, fyrir 112 hesta. Eftirspurn félagsmanna eftir húsunum varð svo mikil að taka varð upp skömmtun og gat hver félagsmaður einungis fengið réttindi fyrir tvo hesta og fengu færri en vildu. Víðivellir koma til skjalanna Nánast frá stofnun félagsins höfðu hestamenn í Fáki hrakist  með aðstöðu sína undan framkvæmdum eftir því sem borgin þandist út. Þannig fór um aðstöðu í Tungu við Suðurlandsbraut, aðstöðu í Laugardalnum og síðast að hluta til aðstöðuna í Neðri-Fáki. Árið 1965 hefst borgin handa við að reyna að koma félaginu burt úr Neðri-Fáki og bjóða Fáki þá land undir hús og jafnvel nýjan skeiðvöll í Breiðholtshvarfi, þar sem Víðivellir, félagssvæði Fáks er núna. Í febrúar árið 1965 er svo ákveðið að sækja um það svæði sem í dag er um 70-75 ha að stærð. Strax var farið í að skipuleggja svæðið og var Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt fenginn til þess og Þorvaldur Kristmundsson arkitekt til að teikna fyrstu húsin. Framkvæmdir hófust svo á svæðinu í lok september og voru fyrstu húsin tilbúin í byrjun janúar 1966. Á þessum tíma voru Fáksfélagar orðnir 498 og mikill kraftur í félaginu. Á fimm árum byggði félagið 14 hesthús auk félagsheimilisins við Bústaðaveg og hóf framkvæmdir á nýju athafnasvæði. Fyrir gamla skeiðvöllinn í Neðri-Fáki voru Fáki borgaðar bætur og var því fé varið í gerð nýs vallar á Víðivöllum og „Stóri völlurinn“ leit dagsins ljós, með öllum sínum 1300 metrum. Völlurinn var vígður við hátíðlega athöfn vorið 1971, í formannstíð Sveinbjörns Dagfinnssonar.

„Stóri völlurinn“ á Víðivöllum formlega vígður vorið 1971.

„Stóri völlurinn“ á Víðivöllum formlega vígður vorið 1971.

Asavöllurinn Árið 1979 færðu vaskir menn félaginu sínu hvorki meira né minna en heilan hringvöll. Þetta voru þeir Gísli B. Björnsson, Hinrik Ragnarsson, Ragnar Hinriksson, Halldór Sigurðsson, Þorgeir Daníelsson, Örn Þórhallsson, Ragnar Tómarsson, Hólmar Pálsson og Friðrik Jörgensen. Völlurinn fékk nafnið Asavöllur eftir hinum nafntogaða gæðingi Hinriks Ragnarssonar. Félagsheimilið reis Á haustdögum 1984 var nýja félagsheimilið gert fokhelt og fóru í hönd skemmtilegir tímar við að einangra, klæða og innrétta nýja húsið. Þetta starf unnu Fáksfélagar í sjálfboðavinnu fyrir félagið sitt. Fleiri framkvæmdir fóru í gang þetta ár en á þessum tíma hófust framkvæmdir við Hvammsvöllinn og áhorfendabrekkuna við hann. Land var sléttað, grasfræi sáð og Skógrækt Reykjavíkur gróðursetti allmikið magn trjáplantna í Víðidalnum. Dalurinn var fegraður enda stóð fyrir dyrum að halda Fjórðungsmót í Reykjavík árið eftir, 1985, sem var og gert. Sama ár vannst sigur í þeirri baráttu Íþróttadeildar Fáks að fá inngöngu í ÍBR og þar með viðurkenningu á hestaíþróttum sem íþrótt. Þá varð Íþróttadeildin fyrsta íþróttadeild hestamannafélags til að fá aðild að sérsambandi íþróttahreyfingarinnar á sínu svæði.

Hinrik Ragnarsson á Asa sem Asavöllurinn var nefndur eftir.

Hinrik Ragnarsson á Asa sem Asavöllurinn var nefndur eftir.

Fákur í framvarðasveitinni Eins og sjá má ef lesin er saga Fáks, hefur félagið oft verið frumkvöðull og verið í forystu félaga í hestamennsku. Það er stórt og mikilvægt hlutverks og vanda þarf til verka í hvívetna til að við getum staðið þá plikt með sóma. Félagsmenn verða að standa vörði um andann og styðja sitt félag hvernig og hvenær sem þeim er unnt til að það megi vaxa og dafna um ókomin ár. Við skoðum söguna ekki nær okkur í tíma að sinni en hvetjum alla til að líta til baka og hugsa fallega til liðinna tíma í Fáki, því við nálgumst nú senn stór tímamót í sögu Fáks, nefnilega 90 ára afmælið þann 24. apríl 2012. Ágrip þetta er unnið uppúr bókunum Á fáki fráum, sem ritstýrð var af Valdimar H. Jóhannessyni og útgefin árið 1992 í tilefni af 70 ára afmæli Fáks, Fákur fimmtugur, en þar var efnisöflun í höndum Kristjáns Guðmundssonar og Sig. Hauks Guðjónssonar og var hún gefin út 1972 í tilefni af 50 ára afmæli Fáks og síðasta en ekki sísta skal nefna Fákur sem Einar E. Sæmundsen bjó til prentunar árið 1949 í tilefni af 25 ára afmæli Fáks. Þessar bækur eru dýrmætur brunnur sem sækja má í sögu og góðar minningar félagsins.