Fréttir

Skeiðvöllur félagsins

Stjórn Fáks er með reglum þessum að skýra notkun á skeiðvelli félagsins. Þeir er þess óska og uppfylla eftirfarandi reglur er heimilt að nýta aðstöðu félagsins á skeiðvelli og gerði til rekstrar hrossa, enda hlýti þeir þeim reglum er hér eru settar. Stjórn félagsins er hér með að leitast eftir því að skapa aðstöðu fyrir þá er þess óska.  Félagið mun skapa aðstöðu til þess að tryggja sem mesta öryggi fyrir þá er nýta sér þessa aðstöðu.  Ávallt skal hafa í huga að Skeiðvöllurinn er opinn fyrir hinn almenna félagsmann á þeim tíma sem ekki er tekinn frá til rekstrar, og  ber að tryggja honum óheftan aðgang að vellinum utan þess tíma.

1. gr.      Öllum skuldlausum félagsmönnum Fáks er heimilt að nota skeiðvöll Fáks til reksturs hrossa samkvæmt reglum þessum. Hámarksfjöldi hrossa í einu skal vera takmarkaður við 100 hross í senn. Rekstrarleyfishafi er ábyrgur gagnvart félaginu fyrir þeim tíma er úthlutað er og sér um greiðslu á gjaldi og ábyrgð á þeim reglum sem hér eru settar þó svo að fleiri sameinist um rekstur. Reglur þessar öðlast gildi þann 1. júní 2011.

2. gr.    Þeir sem þess óska skulu sækja skriflega um leyfi til rekstrar hrossa á skrifstofu Fáks og greiða þar rekstargjald sem er ákvarðað af stjórn Fáks fyrir hvert almannaksár í senn. . Ekki er greitt gjald fyrir almannaksárið 2011. En greiða skal gjald frá og með áramótum 2012 (sem er kr. 20.000 fyrir hvern hóp fyrir 2012) og hvert almannaksár eftir það. Brjóti félagsmaður af sér samkvæmt reglum þessum er framkvæmdastjóra Fáks heimilt að afturkalla leyfi til rekstrar eftir eina skriflega áminningu, og gildir þá afturköllun leyfis í 6 mánuði. Veiting leyfa og áminninga er í höndum framkvæmdastjóra Fáks og skulu félagsmenn vera skuldlausir komi til endurúthlutunar.

3.  gr.     Eingöngu er heimilt að vera með rekstur hrossa á tímabilinu 07:00 til 09:00 alla daga vikunnar, enda fær rekstrarleyfishafi úthlutaðan tíma til rekstrar, bæði daga og tíma. Á tímabilinu 6. júní til 20. ágúst, eða á meðan reiðskólar starfa yfir sumartímann, er rekstur ekki heimilaður. Rekstrarmenn skulu gæta að umhverfi sínu og taka sérstakt tillit til hávaða við rekstur, svo ekki komi til truflunar við íbúa í nánasta umhverfi.

4.  gr.     Félagið mun koma upp aðstöðu fyrir rekstarmenn þannig að auðvelt sé að loka Skeiðvelli til rekstrar og einnig koma upp rennu frá gerði að Skeiðvelli. Þeir er stunda rekstur skulu tryggja að lokanir séu fjarlægðar að rekstri loknum og tryggja óheftan aðgang að Skeiðvellinum fyrir almennan félagsmann utan þess tíma sem hann er ætlaður til rekstrar.

5. gr.      Akstur bifreiða á skeiðvelli félagsins er óheimill utan þess tíma sem ætlaður er til rekstrar hrossa. Í þeim tilvikum skal akstri stillt mjög í hóf, enda völlurinn eingöngu ætlaður hrossum. Heimilt er að aka á eftir rekstri hrossa ef varlega er farið og skal taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Við akstur á skeiðvellinum skal ávallt leitast við að valda sem minnstum spjöllum á vellinum og umhverfi hans. Stjórn félagsins er heimilt að takmarka akstur á skeiðvelli.

6. gr.      Notkun skeiðvallar og gerða er á ábyrgð rekstrarleyfishafa. Félagið er á engan hátt ábyrgt gagnvart skemmdum eða tjóni er hlýst getur af notkun þessari, s.s. ef hross sleppa út af skeiðvelli eða af öðrum ástæðum sem kunna að koma upp við notkun á skeiðvelli eða gerði. Allt tjón er rekja má til rekstrar hrossa á skeiðvelli skal vera á ábyrgð rekstrarleyfishafa.

7. gr.      Stjórn Fáks er heimilt að takmarka tímabundið rekstur hrossa ef sérstakar aðstæður skapast, t.d. í kringum mót og atburði er krefjast þess að lokað sé á rekstur. Tilkynna skal slíkar lokanir á vef félagsins með minnst dags fyrirvara.