Landsmót hestamanna 2018 verður haldið í Víðidal í Reykjavik dagana 1.-8. júlí.  Landsmót hestamanna er stór viðburður þar sem landsins bestu knapar og hestar etja kappi ásamt fjölbreyttri skemmtidagskrá fyrir allan aldur. Þar vera sýnd kynbótahross og  gæðingar auk þess sem kynntar verða vörur og þjónusta í markaðs- og sölutorgum.

Vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði alla landsmótsdagana og má þar nefna að lögð verður áhersla á skemmtilega dagskrá fyrir börnin og þeim gefinn kostur á að komast í snertingu við hestana í leik og starfi.  Þannig geta þau t.d. brugðið sér á hestbak, klappað dýrunum, spreytt sig á þrautum og verkefnum  og tekið þátt í listasmiðju.

Af nógu verður að taka fyrir fullorðna fólkið þar sem sýningin „Saga hestsins í Reykjavík“ verður opnuð í Reiðhöllinni Víðidal ásamt því að landbúnaðarsýning verður sett upp á kynbótasvæði seinni hluta landsmótsins.  Þá munu innlend- og erlend ræktunarbú og söluaðilar verða með sérstakt markaðstorg til að kynna sig og nýjungar í landbúnaðargreininni.

Kvöldvökur með fjölbreyttum skemmtiatriðum verða á dagskrá  öll kvöld þar sem  heitustu skemmtikraftar landsins munu koma fram.

Með öllum seldum vikupössum munu fylgja ýmis fríðindi m.a. Reykjavik City card sem veitir handhöfum þess fríum aðgangi að völdum söfnum í Reykjavík eins og Fjölskyldu- og húsdýragarði, Árbæjarsafni og Þjóðminjasafni, strætó og sundlaugum Reykjavíkurborgar auk þess veitir kortið afslátt að fjölda ferða, verslana og þjónustu.

Samstarfsaðilar að Landsmóti 2018 eru Reykjavíkurborg, Hestamannafélagið Fákur, Landssamband Hestamannafélaga, Bændasamtök Íslands, Höfuðborgarstofa og  Íþróttafélagið Fylkir.

Nánari upplýsingar eru veittar:  fakur@fakur.is

Fylgist með á Facebook:  Landsmót Reykjavík